Ammli!

Yarness á afmæli í dag, svei mér þá!  Wizard

Í tilefni dagsins færðu tengdaforeldrar mínir mér heklunálasett... fullt af djúsí heklunálum í fallegum litum Grin

Ég ætla að sitja í allt kvöld og prjóna í tilefni dagsins! (Reyndar er prjónakvöld regla frekar en undantekning á þessu heimili Wink )

Rauði treflingurinn (sjá í fyrri færslu) gengur vel, kannski ég fitji upp á öðrum (þó ekki eins, hafa smá fjölbreytni í þessu!) í túrkís lit í kvöld. Eða kannski held ég áfram með Blökuna. Eða þríhyrnuna. Eða... eða... valkvíði Shocking

Jæja, farin að prjóna í tilefni dagsins, jey W00t  


Ó hið ljúfa líf!

Löööng fríhelgi að baki þar sem lífsins var notið til fulls í "borgarferð" á Akureyri! Handavinnubúðir (fór í tvær sem ég hef aldrei farið í áður:  Quilt búðina í Sunnuhlíð þar sem var notaleg og góð þjónusta og Hjá Beggu sem er ný búð á Glerártorgi.  Sú er líka notaleg en ég notaði þjónustuna lítið því ég vissi hvað ég vildi.

Keypti 4 dokkur af garni sem ég hef aldrei prjónað úr:
- 2 stk. eldrauðar Topp't Tå frá Gjestal. 100% superwash ull sem á að prjóna á prjóna nr. 7. Er byrjuð á treflingi (e. scarflet, þýðing mín) sem ég fann á Ravelry (hvar annars staðar?!).
- 2 stk. túrkís Freestyle frá Dalegarn, 100% superwash ull sem á að prjóna á prjóna nr. 3,5 - 5. Veit ekki alvef hvað verður úr því en mér finnst líklegt að það verði treflingur einhvers konar - það er svo gaman að dútla í þessum litlu verkefnum, þau eru svo fljótprjónuð!

 

Treflingur
Treflingurinn á byrjunarstigi...

 

Kreppuklúturinn er tilbúinn og bíður eftir að þorna og ég er byrjuð að prjóna Blöku úr bókinni Einband.

 

Blaka
Blaka úr svörtu eingirni (og NEI, þetta er EKKI g-strengur!! Og afsakið myndgæðin, ég þurfti að fletja þetta út, halda kattarkvikindinu frá OG taka myndina!)

 

Tæknilega séð er ég í raun búin að prjóna Blökuna því ég þurfti að rekja "smá" upp um helgina... ögn frústrerandi!

Ferningateppið er á ís, mig vantar meira garn og ég er aðeins að hvíla mig á því.

Ég er búin að skrá mig í "Mystery bag KAL"á hinu títtnefnda Ravelry. KAL þýðir "knit along" sem mætti útfærast sem "prjónum saman" á íslensku. Mysterí-ið felst svo í því að allir í hópnum fá bara agnar-bút af uppskriftinni sent í einu, eina sendingu á viku. Svo verður maður bara að prjóna eftir því og bíða svo spenntur eftir næstu sendingu! Þetta byrjar í júní svo ég sé fram á nógan tíma til að prjóna þetta í sumarfríinu... verst að ég get ekki prjónað í bíl!

Og já, prjónarar:  Ef þið eruð ekki á Ravelry - skráið ykkur! Það er ótrúlegt magn uppskrifta þar og maður getur gleymt sér í marga tíma þar! Svo er líka gott að geta haldið utan um verkefnin sín þar, leitað ráða og látið sig dreyma InLove

Gleðilegt (prjóna) sumar! W00t


Óbeit mín á Mohair...

 Ég hef mikla óbeit á Mohair garni. Ég tók einu sinni að mér að klára flík úr einhverju Mohair-i og sór þess eið að prjóna aldrei úr því aftur! 

Að svitna í lófunum undan "loðnunni" og geta ekki rakið upp er eitthvað sem ég þoli ekki!

Ég hef nú töluvert verið í froskadeildinni (= að rekja upp) og það að geta ekki rakið upp loðið garn án þess að það færi í klessu er ekki fyrir mig!

 

Í prjónaskap er það að frétta að verkefnin mokast áfram hægt en örugglega. Í næstu viku skrepp ég á Akureyri og ætla að kaupa mér eitthvað sjúklega fallegt sumarlegt garn til að gera eitthvað skemmtilegt! Á verkefnaskrá er meðal annars Gormatrefill og Dömupeysa í febrúar og svo á ég eftir að prjóna sitt lítið af hverju úr bókinni Prjóniprjón!  Jiiii hvað ég get ekki beðið eftir sumarfríinu svo ég geti bara setið og prjónað og heklað Wink

 


Aðferðir við prjónaskap

Þegar ég var yngri lærði ég að prjóna í barnaskóla og með því að fylgjast með mömmu. Ég var líka dugleg í alls konar tilraunum og ég vil meina að þær hafi kennt mér hvað mest.

Eftir því sem ég varð eldri komst ég að því að það prjóna ekki allir eins þó að útkoman sé hin sama. Ég prjóna með þýsku aðferðinni (German method) sem er líka kölluð evrópska aðferðin og continental aðferðin.  Fyrir mér er þetta eina skynsama aðferðin við að prjóna. Vissulega eru til margar góðar aðferðir við að prjóna brugðið (eða snúið eins og ég lærði það...) en þetta finnst mér sú gáfulegasta til að prjóna slétt.  Ég áskil mér rétt til að skipta um skoðun á þessu hvenær sem mér sýnist Wink

Á KnittingHelp er hægt að skoða vídjó af öllu mögulegu og læra um prjónaskap með báðum aðferðum. 

Í gærkvöldi fór ég í bíó. Ég sá frábæra mynd, Strákurinn í röndóttu náttfötunum. Í þeirri mynd tala allir Þjóðverjarnir lýtalausa ensku með breskum hreim en það stakk mig ekki nærri því eins mikið og prjónaaðferð móðurinnar. Konan, sem átti að vera þýsk frú í seinni heimsstyrjöldinni, prjónaði ekki með þýsku aðferðinni heldur þeirri amerísku!  Alvarlegt klikk í kvikmyndagerð þar á ferð!

Á leiðinni heim úr bíó féllu snjókorn friðlega af himnum. Ég lét það út úr mér við kærastann hvort það væri ekki yndislegt ef það mundi rigna garni. Þá gæti maður bara staðið úti í "garnkomunni" og vafið sér hnykil úr fallegu garni og jafnvel blandað saman nokkrum tegundum. Mikið væri það dásamlegt InLove


VÍV (WIP's)

Ég er með nokkur VÍV (verkefni í vinnslu (WIP's: works in progress)) þessa dagana.

Hér er Ferningateppi úr Smart. Eigin hönnun en þarf að kaupa meira garn svo það er í bið.

Ég á eftir svolítið af þessu græna og svo að hekla kant utan um það. Kanturinn verður gulur. Svo á auðvitað eftir að skola úr og pressa þetta almennilega.

Hér er nærmynd af "munstrinu" sme er afskaplega einfalt: sléttir og brugðnir kassar á víxl:

 

Svo eru hérna tvær útgáfur af Þríhyrnu úr bókinni Prjóniprjón. Önnur er úr svörtu eingirni á prjóna nr. 6 en hin úr rauðu eingirni á prjóna nr. 8. Ég er þegar búin með eina hyrnu úr gráu eingirni á prjóna nr. 3.5 en fannst hún mega vera gisnari svo ég er að prófa mig áfram.

 Þríhyrnurnar eru mjög ó-lögulegar svona á prjóninum og útkoman sést ekki almennilega fyrr en fellt er af.

 

 

 

Svo er það Kreppuklútur sem ég hef sterkan grun á að breytist í eitthvað annað. Einfalt munstur, fengið frá mömmu (sem fékk það annars staðar frá) og fljótprjónað á prjóna nr. 10 með Cool Flamme (litur nr 4599).


 

Þetta er svona það helsta sem er á prjónunum þessa dagana. Á biðlista eru svo margs konar verkefni, ég þarf t.d. að fara að grípa meira í heklunálina!


Játningar prjónafíkils...

Ég er Yarness. Ég er með prjóna/hekl-dellu á háu stigi. Ég fer helst ekki út úr húsi nema taka prjónana/heklunálina með mér og ég er sífellt að horfa í kringum mig og telja út munstur. Ég hef stoppað ókunnugt fólk úti á götu og talað um prjónlesið sem það klæðist.  Ég hef hangið tímunum saman á Ravelry, Garnstudio og fleiri prjónasíðum að skoða, spá og spegúlera. Ég hef líka vafrað um  eBay í leit af hinum fullkomnu prjónasettum.  Aðrir á heimilinu (maður og köttur) hafa ekki farið varhluta af þessari dellu. Þeir hafa lent í löngum rökræðum um garn, prjónfestu, úrtöku og annað skemmtilegt. Það besta er að kötturinn er alltaf sammála mér, við erum með svo líkan smekk!

 

Kvöldin eru minn tími til hannyrða. Algengustu setningar mínar eftir kl. 19 á kvöldin eru:

"Uss, ég er að telja!"

"Elskan, hvað keypti ég aftur margar dokkur af garninu þarna um daginn?"

og

"Ætli þetta sé ekki sætt í eingirni/lopa/smart garni o.s.frv."

Ásamt muldri sem er oftast eitthvað í þessa áttina:  "tvær sléttar, ein brugðin, band yfir prjón, ein óprjónuð, steypa yfir, tvær sléttar, ein brugðin, band yfir..."

 

Og nú hefur prjónadellan semsagt dregið mig með sér á bloggið!

 

Knit happens!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband