Aðferðir við prjónaskap

Þegar ég var yngri lærði ég að prjóna í barnaskóla og með því að fylgjast með mömmu. Ég var líka dugleg í alls konar tilraunum og ég vil meina að þær hafi kennt mér hvað mest.

Eftir því sem ég varð eldri komst ég að því að það prjóna ekki allir eins þó að útkoman sé hin sama. Ég prjóna með þýsku aðferðinni (German method) sem er líka kölluð evrópska aðferðin og continental aðferðin.  Fyrir mér er þetta eina skynsama aðferðin við að prjóna. Vissulega eru til margar góðar aðferðir við að prjóna brugðið (eða snúið eins og ég lærði það...) en þetta finnst mér sú gáfulegasta til að prjóna slétt.  Ég áskil mér rétt til að skipta um skoðun á þessu hvenær sem mér sýnist Wink

Á KnittingHelp er hægt að skoða vídjó af öllu mögulegu og læra um prjónaskap með báðum aðferðum. 

Í gærkvöldi fór ég í bíó. Ég sá frábæra mynd, Strákurinn í röndóttu náttfötunum. Í þeirri mynd tala allir Þjóðverjarnir lýtalausa ensku með breskum hreim en það stakk mig ekki nærri því eins mikið og prjónaaðferð móðurinnar. Konan, sem átti að vera þýsk frú í seinni heimsstyrjöldinni, prjónaði ekki með þýsku aðferðinni heldur þeirri amerísku!  Alvarlegt klikk í kvikmyndagerð þar á ferð!

Á leiðinni heim úr bíó féllu snjókorn friðlega af himnum. Ég lét það út úr mér við kærastann hvort það væri ekki yndislegt ef það mundi rigna garni. Þá gæti maður bara staðið úti í "garnkomunni" og vafið sér hnykil úr fallegu garni og jafnvel blandað saman nokkrum tegundum. Mikið væri það dásamlegt InLove


VÍV (WIP's)

Ég er með nokkur VÍV (verkefni í vinnslu (WIP's: works in progress)) þessa dagana.

Hér er Ferningateppi úr Smart. Eigin hönnun en þarf að kaupa meira garn svo það er í bið.

Ég á eftir svolítið af þessu græna og svo að hekla kant utan um það. Kanturinn verður gulur. Svo á auðvitað eftir að skola úr og pressa þetta almennilega.

Hér er nærmynd af "munstrinu" sme er afskaplega einfalt: sléttir og brugðnir kassar á víxl:

 

Svo eru hérna tvær útgáfur af Þríhyrnu úr bókinni Prjóniprjón. Önnur er úr svörtu eingirni á prjóna nr. 6 en hin úr rauðu eingirni á prjóna nr. 8. Ég er þegar búin með eina hyrnu úr gráu eingirni á prjóna nr. 3.5 en fannst hún mega vera gisnari svo ég er að prófa mig áfram.

 Þríhyrnurnar eru mjög ó-lögulegar svona á prjóninum og útkoman sést ekki almennilega fyrr en fellt er af.

 

 

 

Svo er það Kreppuklútur sem ég hef sterkan grun á að breytist í eitthvað annað. Einfalt munstur, fengið frá mömmu (sem fékk það annars staðar frá) og fljótprjónað á prjóna nr. 10 með Cool Flamme (litur nr 4599).


 

Þetta er svona það helsta sem er á prjónunum þessa dagana. Á biðlista eru svo margs konar verkefni, ég þarf t.d. að fara að grípa meira í heklunálina!


Játningar prjónafíkils...

Ég er Yarness. Ég er með prjóna/hekl-dellu á háu stigi. Ég fer helst ekki út úr húsi nema taka prjónana/heklunálina með mér og ég er sífellt að horfa í kringum mig og telja út munstur. Ég hef stoppað ókunnugt fólk úti á götu og talað um prjónlesið sem það klæðist.  Ég hef hangið tímunum saman á Ravelry, Garnstudio og fleiri prjónasíðum að skoða, spá og spegúlera. Ég hef líka vafrað um  eBay í leit af hinum fullkomnu prjónasettum.  Aðrir á heimilinu (maður og köttur) hafa ekki farið varhluta af þessari dellu. Þeir hafa lent í löngum rökræðum um garn, prjónfestu, úrtöku og annað skemmtilegt. Það besta er að kötturinn er alltaf sammála mér, við erum með svo líkan smekk!

 

Kvöldin eru minn tími til hannyrða. Algengustu setningar mínar eftir kl. 19 á kvöldin eru:

"Uss, ég er að telja!"

"Elskan, hvað keypti ég aftur margar dokkur af garninu þarna um daginn?"

og

"Ætli þetta sé ekki sætt í eingirni/lopa/smart garni o.s.frv."

Ásamt muldri sem er oftast eitthvað í þessa áttina:  "tvær sléttar, ein brugðin, band yfir prjón, ein óprjónuð, steypa yfir, tvær sléttar, ein brugðin, band yfir..."

 

Og nú hefur prjónadellan semsagt dregið mig með sér á bloggið!

 

Knit happens!


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband