Aðferðir við prjónaskap
13.4.2009 | 14:02
Þegar ég var yngri lærði ég að prjóna í barnaskóla og með því að fylgjast með mömmu. Ég var líka dugleg í alls konar tilraunum og ég vil meina að þær hafi kennt mér hvað mest.
Eftir því sem ég varð eldri komst ég að því að það prjóna ekki allir eins þó að útkoman sé hin sama. Ég prjóna með þýsku aðferðinni (German method) sem er líka kölluð evrópska aðferðin og continental aðferðin. Fyrir mér er þetta eina skynsama aðferðin við að prjóna. Vissulega eru til margar góðar aðferðir við að prjóna brugðið (eða snúið eins og ég lærði það...) en þetta finnst mér sú gáfulegasta til að prjóna slétt. Ég áskil mér rétt til að skipta um skoðun á þessu hvenær sem mér sýnist
Á KnittingHelp er hægt að skoða vídjó af öllu mögulegu og læra um prjónaskap með báðum aðferðum.
Í gærkvöldi fór ég í bíó. Ég sá frábæra mynd, Strákurinn í röndóttu náttfötunum. Í þeirri mynd tala allir Þjóðverjarnir lýtalausa ensku með breskum hreim en það stakk mig ekki nærri því eins mikið og prjónaaðferð móðurinnar. Konan, sem átti að vera þýsk frú í seinni heimsstyrjöldinni, prjónaði ekki með þýsku aðferðinni heldur þeirri amerísku! Alvarlegt klikk í kvikmyndagerð þar á ferð!
Á leiðinni heim úr bíó féllu snjókorn friðlega af himnum. Ég lét það út úr mér við kærastann hvort það væri ekki yndislegt ef það mundi rigna garni. Þá gæti maður bara staðið úti í "garnkomunni" og vafið sér hnykil úr fallegu garni og jafnvel blandað saman nokkrum tegundum. Mikið væri það dásamlegt
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.